Lána Guðspjallið

„ KOMIÐ TIL MÍN EF ÞIÐ VILJIÐ HLUTABRÉF“
Hrópar forstöðumaður safnaðarins og safnaðarbörnin taka lán fyrir bréfunum en bókhaldið er falsað og bréfin eru verðlaus. Sóknarbörnin tapa sinni ávöxtun en nóg er til af lömbum án hirðis, nóg er til af auðtrúa fólki


KENNITÖLUR, KENNITÖLUR þjóna hlutverki í braksríki himna, okkur mun ekkert bresta. Drottinn mun senda féhirði sinn yfir lánastofnanir svo við fáum víkjandi lán fyrir hlutabréfum í eilífðinni. Við greiðum vexti yfirdráttarreikninga til æviloka. Ó, peningur þú sem ert í banka verði þinn gjaldeyri hérlendis sem erlendis.


Safnaðarbörin syngja „eninga meniga, meiri peninga“ Dýrð sé Drottni í handhafa skuldabréfum, án þeirra fer allt til fjandans. Fjármagnið situr á peningahimnum og ávaxtast. Þannig heldur Úlfurinn söfnuðinum, Úlfurinn sér til þess að til sé gjaldeyrir til að viðhalda hagvexti.


Ísland 1000 ár og ekki ári meir. 1000 ár með vöxtum og vaxtavöxtum. Ef þú ert að lesa þetta til þess að finna hjálpræði þá hefur þú farið villur vega, hér er aðeins fals og svik á ferð. Ég hvet hvern þann sem les þetta að brenna þetta bréf, að græða á daginn og halda grillveislu að kvöldi.


DÝRÐ SÉ GUÐI Í HÁUM FJÁRHÆÐUM. Skítt með hrun og gjaldþrot, við núllstillum bara kerfið. Prentum út falsaða peninga, skiptum þeim út fyrir gjaldeyri, tökum þá svo aftur úr umferð og fellum gengið. Kaupum blóðdemanta og setjum upp falskar námur. Græðum peninga.


Það vita allir að þjófurinn einn komst til himna og að aðrir hvíla í hel og bíða upprisunnar. Dauðinn hvílir yfir og munið að Guð er ekki með oss nema í háum fjárhæðum. Hann er farinn til Tortola og ætlar ekki að koma aftur nema til að innheimta vexti. DÝRÐ SÉ GUÐI Í FJÁRHÆÐUM OG INNISTÆÐUM BANKAREIKNINGA. DÝRÐ SÉ VÖXTUM OG VAXTAVÖXTUM.


Leggi ég milljón inn á bankareikning, þá lánar bankinn öðrum manni, níu hundruð þúsund. DÝRÐ SÉ GUÐI Í TÖLVUKERFINU OG ÚTLÁNUM BANKANNA. Heyr sem vilja heyra og sjá sem vilja sjá að tíminn er liðinn, það borgar engin reikninginn, hann hefur verið sendur til innheimtu. Bankinn munu hirða af ykkur eignirnar, hann fellir engar skuldir. Úlfurinn er féhirðirinn og honum mun ekkert bresta.

 

Allar götur eru öngstræti, við drögum á eftir okkur skuldahalann, við veltum á undan okkur kletti skuldanna sem krefst þess að við endurfjármögnum lán okkar. Við greiðum bankanum vexti en höfuðstóllinn minnkar ekki. DÝRÐ SÉ VAXTABÓTUM. Og ef allt klikkar, dýrð sé örorkubótum og húsaleigubótum, án þeirra þyrfti að greiða markaðsverð fyrir leiguhúsnæði. Skál fyrir Íslandi, skál fyrir Úlfinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband