Þriðjudagur, 20. desember 2016
Mesta blekking nútímans er lýðræði
Lýðræði er það stjórnarfyrirkomulag þegar lýðurinn, sem í raun ætti ekki að skipta sér af stjórnmálum, velur sér fulltrúa til alþingis. Þeir sem bjóða sig fram á vegum stjórnmálaflokkanna hafa misjafnar forsendur til þess. þegar til þings er komið er valdið frekar takmarkað. Þar er unnið við að setja lög og reglur eftir pöntun þeirra sem hafa valdið. Alþingismenn gera það sem þeim er sagt að gera eftir flokkspólitískum línum. Höfuð hvers flokks ráðfærir sig við hagsmunaaðila og stefnan er lögð eftir þeirra hag. Aðalvinnan er svo lögð í það að sannfæra almenning um að sá hópur sem er við völd sé þess verður og spila þar vinsældir mikið hlutverk. Blekkingamyndir og ímynduð mál eru sett á oddinn til fjögurra ára í senn til þess að auka á vinsældir og á meðan er engin raunveruleg stefna. Og sökum þess að endalaust er verið að eltast við vinsældir fjöldans fer allt reglulega í kaldakol með tilheyrandi puttabendingum, ásökunum, afsökunum, yfirbreiðslum og útúrsnúningum.
Málin sem rædd eru á þingi koma venjulegu fólki oftast ekkert við, en hreyfa við lífsbjörginni. Land sem er stjórnað með peningastefnu einni saman án þess að huga að lífi og siðum kemst í þrot fyrr en seinna. Nú á tímum skiptir mestu máli að það sé vöxtur í hagkerfinu með tilheyrandi sveiflum á launakjörum almennings. Allar stéttir vilja hærri launaprósentu við gerð kjarasamninga heldur en síðast, vegna þess að kaupmáttur hefur rýrnað eða staðið í stað. Lýðurinn hleypur stöðugt í hringekju án þess að komast nokkuð og launin stjórna því hvort hann geti haldið áfram eða ekki. Í raun hlaupa alþingismenn hlaupa sjálfir á sínu hjóli og mestu máli skiptir að þeir séu uppteknir við að hlaupa sitt limbó svo pöpullinn haldi að þeir séu með völdin og við stjórn. Raunin er reyndar sú að það fólk sem raunverulega hefur úrslitavald myndi aldrei bjóða sig fram til Alþingis.
Auk þess halda fjölmiðlar að fólki skoðunum sem ættu ekki að fá að heyrast. Það fær hver sem er að segja sitt um málefnið. Það er engin leið í lýðræðislegri umræðu að komast að afgerandi niðurstöðu og sátt vegna þess að skoðanagrauturinn er þvílíkur. Það er skipt upp í lið með eða á móti og það er spilað upp á vinsældir. Svo er það sem gerist undir hulu lýðræðis, þegar sjónvarpið er notað til að dreifa athyglinni, sem er það allra hættulegasta, að almenningur sofnar á verðinum og lætur leiða sig fram af hengiflugi blekkingana. Og vegna heimsku lýðsins er honum gert til geðs og haldnar uppákomur þar sem honum er gefið vald með kosningarétti sínum á meðan raunverulegt vald fer sínu fram. Þar skiptir engu að almenningur er hafður að fífli með þeirri blekkingu að það sé vald lýðsins sem ráði för. Þegar svona árar er betra að einn vitur maður stjórni, heldur en margir vitlausir, og þar með fella niður blekkingar lýðræðis.
Greinin hefur áður birst í Morgunblaðinu 4. október 2011
Flokkur: Menning og listir | Breytt 22.12.2016 kl. 16:12 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Öddi skáld, sonur mömmu húsmóður og pabba organista, hvernig vit þú hafa þetta?
Hrólfur Þ Hraundal, 20.12.2016 kl. 19:51
Ég hef ekki sett saman ráð og nefndir og ætla ekki að svara að svo stöddu.
Öddi, 20.12.2016 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.