Bad boy bubby

bad-boy-bubby-1993-movie-rolf-de-heer-5.jpg

 

„Bubby heldur út í heim KVIKMYNDIR Regnboginn LJÓTI STRÁKURINN BUBBY BAD BOY BUBBY" Leikstjórn og handrit: Rolf de Heer. Aðalhlutverk: Nicholas Hope, Claire Benito, Ralph Cotterill, Carmel Johnson og Paul Philpot. IntraFilm. 1993.

Ástralskar bíómyndir eru sjaldséðar orðnar hér í kvikmyndahúsunum eftir að nýbylgjan ástralska leið undir lok. Grínarinn Paul Hogan er orðinn helsti fulltrúi ástralskrar kvikmyndagerðar seinni árin. Ungum áströlskum leikstjórum hefur þó tekist að vekja athygli hin seinustu ár eins og Geoffrey Wright, sem gerði hina umdeildu og áhrifamiklu nýnasistamynd Romper Stomper", og Rolf de Heer sem gerði myndina Ljóti strákurinn Bubby í Regnboganum. Hvernig mynd er það? Ímyndið ykkur að Kaurismakibræðurnir finnsku hafi gert sambland af Being There" og Kaspar Hauser í Ástralíu og þá hafið þið einhverja hugmynd út á hvað Ljóti strákurinn gengur. Hún hefur allt til að bera í sérstaka og skemmtilega cult"-mynd.

Hún byrjar í viðbjóðslegri rottuholu þar sem hinn 35 ára gamli Bubby býr með móður sinni. Hún hefur aldrei hleypt honum út fyrir hússins dyr en lemur hann og ber fyrir minnstu yfirsjónir og sefur svo hjá honum á kvöldin. Hún hefur logið því að honum að utandyra sé andrúmsloftið banvænt og setur á sig gasgrímu í hvert sinn sem hún fer út. Dag einn knýr faðir Bubby dyra, sem ekki hefur látið sjá sig í 35 ár, og verður þá líf Bubby jafnvel enn ömurlegra. Lýkur þeim viðskiptum þannig að Bubby kæfir óafvitandi báða sína foreldra með plastfilmu og heldur út í heim.

Þetta er aðeins grunnurinn að enn einni sögunni af manninum sem upplifir alla kosti og galla nútímans eins og smábarn laus við þekkingu, gildismat og siðferðisþroska. Hann gæti verið frá Mars. Um leið og Bubby kynnist ruglingslegu samfélaginu og lagar sig að því eftir bestu getu með tilheyrandi árekstrum verður hann nokkurskonar gúru eða leiðtogi og hleypir af stað nýrri tísku með því einu að herma eftir því sem hann sér og heyrir. Því þrátt fyrir viðbjóðinn og óeðlið í upphafinu er hér merkilegt nokk mannvænleg og falleg og stundum spaugileg saga á ferðinni um þyrnum stráða braut hins misnotaða einfeldings til betra lífs. Blótsyrðaflaumur og mannvonska einkennir mikið það líf sem hann kynnist utandyra nema hann kemst ásamt öðru í samband við ómerkilega hljómsveit og verður vítamínsprautan sem hún þarfnast með því einu að apa eftir mannvonskunni sem á leið hans hefur orðið og túlka þannig heiminn sem við lifum í.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn gefur athyglisverða mynd af kulda og ömurleika stórborgarlífins í Ástralíu frá sjónarhóli einfeldingsins og Nicholas Hope gæðir Bubby lífi með frábærum leik og túlkar eftirminnilega mann sem hefur það eitt haldreipi að herma eftir því sem við hann er sagt og gert. Hann stjórnast af frumhvötunum einum og Hope tekst stundum að minna á refslegan leik Jack Nicholsons þegar hann er í versta hamnum. Ljóti strákurinn Bubby er kannski í lengsta lagi en hún er alltaf áhugaverð, stundum næstum óbærileg í ljótleikanum og sannarlega öðruvísi valkostur þeim sem aldir eru upp á Hollywoodmyndum.“

Arnaldur Indriðason  Bad boy bubby

 

Skemmtið ykkur vel.

Bestu kveðjur Öddi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband