Í frelsisins nafni. (Sveipur) (Félagsleg harmsaga um mann, sem var árvakur)

I

Það var á Íslandi rétt eftir aldamótin 2000, að Sveipur var á götunni yfir harðasta vetrartímann. Það var napurt og næðingssamt. Frost og hríðar nörtuðu í hann og bitu, þar sem hann var yfirgefinn á götunni. Svona er þetta ekki á hinu guðsútvalda Íslandi, þar sem hvíslað er að þér, að þú sért einn hinna útvöldu. Okkar maður, Sveipur, hafði átt harða æsku og síður en svo skapað sína ógæfu sjálfur. Hann dvaldist í yfirgefnu pakkhúsi í Daníelsslipp við Reykjavíkurhöfn. Þar las hann um Mozart og ævintýrið um víkinginn Orm Rauða, auk þess sem hann gluggaði í Stjórnskipulag Íslands við týru frá vasaljósi. Stöku sinnum hýrðist hann uppi á hálfrifnu lofti JL-hússins í vesturbæ Reykjavíkur. Hann vildi ekki að athygli færi að beinast að sér við slippinn. Hann taldi að ef slíkt henti gæti hann verið hrakinn á burt sem rotta eða hússnæðislaus maður. Sveipur las sér til fróðleiks Sýnir og Vitranir eftir Erick Von Däniken og heimspekifyrirlestra Arnórs Hannibalssonar. Hann reikaði um Reykjavíkurborg og aflaði sér bjarga þar sem hana var að finna. Björgina sótti hann helst í port þar sem var að finna kistu, fulla af matvælum. Í raun mátti hann ekki fá það sem í kistunni var. Sveipur varð því að beita klókindum. Ekki mátti nokkur sjá. Hann þurfti að vera slunginn sem þjófur. Sveipur var ekki allur þar sem hann var seður. Hann gekk um með hugsjónir og hafði gáfur. En tímar og tækifæri voru honum ekki hagstæð. Hann sá ekkert færi til að láta drauma sína rætast. Erfitt var fyrir hann að hýrast á þessum stöðum og á strætum Reykjavíkurborgar. Hann hafði hugsjónir og drauma. En þegar hann leitaði aðstoðar yfirvalda eftir húsaskjóli, var komið fram við hann sem hin lægsta. Það var talað við hann sem hann væri óviti. Hann hugsaði sem svo að fólk væri svo grunnhyggið, að halda að einungis hugmyndasnauður maður gæti orðið hornreka í samfélaginu. En það var boðið upp á „aðstoð“ frá yfirvöldum og hann leitaði hennar. Ekki var að finna þá aðstoð sem hann þurfti. Ef hann dirfðist að vera ekki óskynsamari en ráðgjafinn, sem hjálpina átti að veita, eða hafa yfirsýn yfir hlut sinn og neitaði að láta koma fram við sig sem undirmálsmann, var talið að honum væri ekki viðbjargandi. Hann var látinn finna að slíkur maður væri ekki húsum hæfur og væri best settur áfram á götunni, eða jafnvel á geðveikrahæli. Fyrir einhverjum kann að vera svo illa komið að þeir séu ólæsir. Má vera að svo illa ástatt sé fyrir einstaka manni. Sveipur man þó ekki að hafa um sína tíð hitt slíkann mann.
Þegar svo var fyrir Sveipi komið að hann gat ekki annað fengið, en styrk upp á 58.000 krónur borgaði hann útistandandi skuldir samviskusamlega. Hann fékk sér ódýra steik og rauðvín með. Fór svo í laugarnar. Að því loknu átti hann eftir 22.000 krónur. Hann hugsaði mál sitt og hafnaði á Hjálpræðishernum. Þar fékk hann herbergi leigt á efstu hæð. Herbergið var lítið. Hann var feginn að komast í skjól. Hann átti ekki fyrir nema 12 dögum. Það varð víst svo að vera. Í herberginu, sem var um 7 fermetrar, var lítið ævagamalt rúm sem brakaði í, vaskur og gamalt náttborð. Hann fór vart út nema til morgunverðar. En það var ekki vel séð að hann gæddi sér á skyri og fengi sér brauð með síld á morgnana. Hann taldi morgunverðinn innifalinn í leigunni, en Hjálpræðishermenn vildu krefja hann um 300 krónur fyrir hvern morgunverð. Hann sagði þá trúlausa, þráaðist við og hélt til morgunverðar hvern morgun af illri nauðsyn. Hann borðaði, drakk kaffi og las blöðin undir stingandi augum hjálpræðishermanna. Að öðru leyti hélt hann sér inni á herbergi sínu. Segja má að á þessum 12 dögum hafi hann orðið „syndlaus“. Nema það að fá sér morgunverð hafi verið synd. Dæmi hver um það. Þetta gerði hann þá 12 morgna, sem hann fékk að vera þar. 12 dagar eru ekki lengi að líða og það kom fljótt að því að hann þurfti að fara á götuna aftur. Það gerði hann samanbitinn af tilhugsuninni um kalt strætið, en með æðruleysi. Hann ráfaði lítið eitt um götur, hugsandi hvað skyldi gera. Hann hafði fengið nokkur ljóð birt eftir sig í Morgunblaðinu. Hann hugsaði og sannfærði sig um að hann hefði ekki fengið réttláta borgun. Svo hann tók sig til, svangur og „syndlaus“og gekk að Morgunblaðshúsinu. Hann ætlaði sér að finna Gunnar Ísberg ritstjóra menningarblaðs Morgunblaðsins. Það er löng leið að ganga frá Hjálpræðishernum að Morgunblaðshúsinu. En það gerði hann. Þegar þangað var komið gekk hann inn í anddyrið og spurði til vegar í afgreiðslunni. Kona sem þar var sagði að ritstjóran væri að finna á 3 hæð. Hann tók lyftuna upp og settist þar í huggulegri biðstofu. Hann skoðaði sig vel um, stóð upp til að rétta við eina mynd sem var skökk. Hann steig um gólf og þá fóru atburðir, sem birst höfðu á síðum Morgunblaðsins þá 12 daga, sem hann hafði verið í húsaskjóli, að sækja að honum. Þeir vöktu upp hjá honum reiði, sem honum fannst réttlát.

Á biðstofunni líður og bíður þar til kemur kona sem sagðist heita Kristrún. Hún spyr hvort ekki megi bjóða Sveipi kaffi. Hann gæti ekki fengið að hitta ritstjórann alveg strax. Hann þáði boðið með þökkum. Kristrún bað hann að elta sig eftir gangi einum, sem hann gerði. Þegar inn af honum kom var þar lítið eldhús með „kaffisjálfsala“. Hún býður honum bolla af Expressó og súkkulaði. Kristrún segir að hann þurfi hvorki að greiða fyrir kaffið né súkkulaðið. Sveipur hafði verið á vergangi einhverja mánuði, fyrir utan þá 12 daga sem hann dvaldi á Hjálpræðishernum. Hann þakkaði fyrir sig. Hér fann hann ekki fyrir því að hann væri nokkuð minni maður. Kristrún spurði hvort hann gæti ekki bjargað sér sjálfur, hún þyrfti að sinna sínum verkum. Sveipur sagðist geta það og við það fór hún. Þvílíkt gæðafólk sem vinnur hér. Þetta á hún veröld til, það er nú meira! Kurteisi. Þetta fólk þarf ekki að koma hingað til að krefjast fjár fyrir nokkur ljóð. Hann stikaði eftir ganginum með bollann þar til hann kláraðist og fékk sér svo sæti. Hann dokaði enn við og ákvað að fá sér annan kaffibolla og aðeins meira súkkulaði. Hann gekk því aftur inn ganginn að „kaffisjálfsalanum“. Hann fékk sér tvöfaldan Expressó kláraði hann í hvelli og fékk sér svo annann og tók þrjú súkkulaði. Hann borðaði eitt með bollanum og fékk sér svo strax annað. Hann hafði þá fengið þrjá Expressó. Og þá fljótlega fór samviskan að segja til sín. Þrjú súkkulaði og þrír bollar! Það er of frekt. Það er best ég skili síðasta súkkulaðinu, sagði hann við sjálfan sig. Hann gerði það og kláraði bollann. Að því búnu fór hann aftur til sætis síns þar sem hann beið eftir ritstjóranum, Gunnari Ísberg. Sveipur svitnaði í lófum, því Expressó kaffið hafði verið sterkt. Hann fór að pirrast yfir sjálfum sér. „Því ætti ég að verðskulda greiðslu fyrir þessi ljóð?“. Slíkar voru hugrenningar hans þar til að kom Gunnar og bauð honum að ganga með sér inn á skrifstofuna. Þegar á skrifstofuna var komið tókust þeir í hendur og Gunnar Ísberg bauð hinum ógæfusama manni sæti og spurði hvert erindið væri.


II


Já, málið er, sagði Sveipur, að ég hef fengið birt nokkur ljóð og eitt sinn prentuðuð þið tvö hvort ofan í annað, svo ómögulegt var að greina hvað þarna væri á ferðinni. Það varð mér mikil skömm og ég heyrði glósur að ég væri að reyna finna upp einhvern nýjan stíl. Svo hef ég einungis fengið 2000 krónur fyrir hvert ljóð, sem er ekki einu sinni nóg fyrir nýrri skyrtu. Ég er hér kominn til að krefjast sanngjarnrar borgunar. Það kom örlítið á ritstjórann. Hann spurði hvað hann hefði í huga. Ég vil fá 150.000 krónur sagði Sveipur og framvegis 10.000 krónur fyrir hverja birtingu. Gunnar hefur líklegast talið að þarna hafi brjálaður maður verið á ferðinni og fór sér að öllu hægt. Hann passaði sig að styggja ekki manninn. Hann svaraði, að slíku væri ekki hægt að koma í kring á svipstundu. Hann þyrfti að bera þetta mál upp á ritstjórnarfundi. Hann skildi gera það á næsta fundi. Sveipur sá að þarna var lítil von um bjargræði, en krafðist þess að peningarnir yrðu komnir inn á reikning sinn um næstu mánaðamót. Sveipur stóð upp og rétti Gunnari miða með reikningsnúmeri og sagðist senda málið til lögfræðings ef hann fengi ekki greitt. Hver veit hugsaði Sveipur, sem hafði trú á sjálfan sig eins og oft á ögurstundu. Gunnar sagðist gera allt sem hann gæti. Hann stóð upp og rétti fram hönd sína. Sveipur tók í hönd hans og kvaddi. Hann var þá ekkert skáld og hafði engan rétt til að krefjast borgunar. Hann hafði ekki verið í skóla svo heitið geti, hafði ekki lokið skyldunámi. En hann taldi sig ekki þurfa mikla menntun til að geta hugsað rökrétt og eiga von. Hann vissi að það væri ekki glæta að hann fengi borgun. Hann labbaði aftur niður í miðbæ. Reikaði þar um stræti og fór aftur að hugsa um það sem hafði verið skrifað í blöðin þá 12 daga, sem hann hafði dvalið á Hjálpræðishernum. Hann hugsaði með sér að eitthvað yrði að gera til að forða Íslandi frá þeirri ógæfu sem yfir það væri að dynja. Og rólega gerðist það óumflýjanlega, hann fór að missa tökin. Hann byrjaði að tala upphátt við sjálfan sig um hrun lýðveldisins á meðan hann rölti um miðborgina. Á hann fór að renna æði og segja má að hann hafi tryllist þar sem hann fór stefnulaus um þar til hann fór inni í banka við Lækjargötu. Þar fór hann að hrópa, líkt og vitfirringurinn sem æpti í kirkjum og um torg fyrir nokkrum öldum í útlöndum og hrópaði Guð vera dauðan. Hann hélt því fram að verið væri að ræna þjóðina og hrun biði íslenska ríkisins. Hann sagði einkavæðinguna, sem stæði yfir, myndi grafa undan ríkinu og skilja það á endanum eftir valdlaust.


III


Við skulum nú fara örlítið aftur í tímann og heyra hvað Sveipur sagði: „Hvaða vitibornir menn svipta sjálfa sig völdum, þeir eru að hafa sig af fíflum? Hvenær ætlið þið að sjá það sem liggur ljóst fyrir? Við hröpum niður virðingar stiga þjóðanna. Eru allir blindir eða daufir? Ég spyr hvað á þjóðin eftir í sameiningu, sem hún getur bent á og sagt vera afrakstur dugnaðar síns? Ég er ekki hlynntur því að ríkið sé allsráðandi, allt í öllu. Það þarf ekki að gnæfa yfir sem eitthvert ógnarvald. En nú hefur verið farið yfir mörkin. Við getum alveg eins farið og selt landið sjálft. Þetta er eins og að vakna upp við vondan draum. Hvernig getur það verið þáttur í að tryggja sjálfstæði okkar að gefa valdið frá stjórnmálunum yfir til einkaaðila? Það getur vitanlega sýnt fram á tímabundinn hagnað ríkissjóðs að selja allt góssið. En hverjum gagnast gróðinn ef Ísland er ekki sjálfstætt ríki? Hvernig á að halda uppi almannaþjónustu?“ Sveipur sagði fleira um hrun og tímanna tákn. Hann var brjálaður. Hann æddi næst út úr bankanum og hélt í átt að Stjórnarráðinu. Fólk inni í bankanum hélt áfram með verk sín eins og ekkert hafi í skorist. Það var sem öllum væri sama. Hann hafði ekki nærst mikið. Aðeins skyr og brauðsneið með síld hjá Hjálpræðishernum, klukkan sex á morgnana í 12 daga og um morguninn drukkið þrjá tvöfalda expressó á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins. Sveipur hóf upp raust sína, sem var orðin rám og dýrsleg: „Þið kjánar, sem allt þykjast geta og vita. Menntun ykkar er glapræði ykkar.
Fólk staldraði við og fór að fylgjast með Sveipi öskra á Stjórnarráðið. Hann sá það og hélt þá nokkurn veginn sömu ræðu er hann hélt í bankanum, en kallaði hina ráðandi stétt landráða- og óráðsmenn til skiptis. Það væri verið að koma eignum landsins undan. Og hann spurði: „Ef þetta eru föðurlandsvinir, hverjir eru þá óvinir þessa lands?“ Þeir eru að koma eignum, sem eru okkar, undan til einhverra, sem við vitum ekkert hverjir eru og varpa þar með ábyrgð ríkisins yfir á einkaaðila. Svo mun Evrópusambandið hirða landið þegar eignirnar hafa verið seldar. Sveipur hrópar: „Hvaða frelsi er falið í því fyrir Ísland?“ Hann heldur áfram ræðu sinni í algleymi um stund. Hann getur sér þess til að þeir séu blindaðir af girnd eftir gróða og beri í brjósti sér „sálarlausan“ kapítalisma. Sveipur sagðist engu hafa að tapa. Hann væri sjálflærður og sæktist ekki eftir umbun af neinni sort. En þannig menn, sagði hann, gætu orðið ósigrandi. Hann spurði hvar við héldum að Ísland yrði á lista yfir fjárveitingar meðal margmilljónaþjóða innan Evrópusambandsins. Þjóð, rétt yfir 300.000 íbúa. Haldið þið, að það verði gott að búa úti á landi ef byggja þarf brú? Eða gera göng, flugvöll eða nýjan veg? Við séum sem dropi í hafi og hafið gæti mulið björg en dropinn þyrfti að hola steininn í takt við aldirnar. Hann sá skilti er á stóð: Forsætisráðherra. Hleypur að því. Lemur í það og segir: „Því ekki ég?“.


IV

Því næst fór hann yfir Lækjargötuna, að rosknum mönnum sem voru að fylgjast með honum. Hann var kominn með brúna froðu í munnvikin eftir kaffið sem hann fékk á skrifstofu Morgunblaðsins. Hann var óður sem tryllt naut. Hann æpti að þeim að þeir ásamt hugsandi hluta þjóðarinar væru vitni að stærsta glæp Íslandsögunar síðustu 700 ár. Þeir gengju kúgaðir um líkt og Íslendingar undir valdi Haraldar Noregskonungs. Þeir ættu í raun að hypja sig aftur í moldarkofana, nútíminn væri ekki þeirra stund, þeir gætu ekki sýnt kjark til að standa upp gegn þeim sem misbjóða þeim. Hann sagði Íslendinga vera huglausa þjóð. Sveipur vildi stríð. Hann sagði Íslendinga ekki hafa þekkingu á stríði. Nú væri tilefni til. „En hvað gerið þið, þið gerið ekkert. Hann sagði þá hafa látið merja lífið úr landsbyggðinni fyrir framan augu sín án þess að aðhafast nokkuð annað en að tauta óánægðir með hökuna ofan í brjóst. „Þið eruð sem óvitar“, æpti hann, „sem hægt er að kaupa fyrir kanakaramellur“. „Þvílíkir endemis sakleysingjar“. Að þeim orðum sögðum tók Sveipur á rás yfir Lækjartorg og hélt í átt að Kristskirkju. Þar sem hann settist niður og talaði við Guð. Stuttu síðar kom lögreglan og tók hann höndum. Farið var með Sveip á Kleppsspítala. Hann var tuttugu og sex ára. Hafði verið hér og þar um sína tíð. Hann hafði lífsreynslu sem gæti fengið hvern mann til að blygðast sín, en hann trúði á annað tækifæri. Hann segir enn að ekki þurfi mikla menntun til að hugsa rökrétt. Hann er kominn útaf Kleppsspítala og hefur þá trú að búið sé að fella Ísland, að það endi í hinu föðurlausa Evrópusambandi. Í hans huga er ríkið orðið valdlaust eftir að hafa verið selt í „frelsisins“ nafni. Hann segist sjá þess teikn að ákveðið hafi verið að ná peningum þjóðarinnar úr landi með þeim rökum, að menn hugsi betur um eigið fé en annarra. Að hér sé svo lítið hagkerfi að vaxtarmöguleikar fyrir auð þjóðarinnar hafi verið takmarkaðir Ýmislegt gekk á í huga hans, til dæmis var hann Guð og konungur yfir Íslandi. En það var þó svo hér áður fyrr, að konungurinn var Guð lýðsins.
Endir

 

Sagan er skrifuð á Kirkjubraut á Akranesi og á Laugabraut. 

Sagan er ekki endanleg...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband